top of page

Tengiliður farsældar 

Matthildur Elísa Vilhjálmsdóttir,
deildarstjóri stoðþjónustu við skólann
matta@leikholt.is
486 5586


 

Leikskólastjóri sinnir einnig hlutverki tengiliðs farsældar sé óskað eftir því.

Nálgast má upplýsingar um málastjóra hjá Skóla- og velferðarþjónustu Uppsveita.

 

Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna kveða á um að öll börn og foreldrar skuli hafa aðgang að tengilið þjónustu í þágu farsældar barns eftir því sem þörf krefur.

Tengiliður skal hafa viðeigandi þekkingu á þjónustu í þágu farsældar barns. Hann má ekki vera tengdur barni eða foreldrum þess með þeim hætti sem mundi leiða til vanhæfis.

Frá fæðingu og þar til barn hefur nám í leik- eða grunnskóla er tengiliður starfsmaður heilsugæslustöðvar eða heilbrigðisstofnunar í heilbrigðisumdæmi barns. Sama á við ef þörf er á samþættingu þjónustu á meðgöngu.

Þegar barn er við nám í leik-, grunn- eða framhaldsskóla er tengiliður starfsmaður skólans þar sem barn er við nám. Ef það á ekki við er tengiliður starfsmaður félagsþjónustu þess sveitarfélags þar sem barn á lögheimili.

Hlutverk tengiliðs farsældar er að:

  • að hafa hagsmuni barns að leiðarljósi.

  • að rækja hlutverk sitt í samstarfi og samráði við foreldra og barn.

  • að veita upplýsingar um þjónustu í þágu farsældar barns.

  • að aðstoða við að tryggja aðgang að frummati á þörfum barns.

  • að skipuleggja og fylgja eftir samþættingu fyrsta stigs þjónustu í þágu farsældar barns.

  • að koma upplýsingum til sveitarfélags um þörf fyrir tilnefningu málstjóra.

  • að taka þátt í starfi stuðningsteymis eftir því sem við á.

Ferill samþættingar þjónustu

Vísbendingar um að þörfum barns sé ekki mætt
Ef þjónustuveitandi, eða sá sem veitir almenna þjónustu í þágu farsældar barns, tekur eftir og greinir vísbendingar um að þörfum barns sé ekki mætt með fullnægjandi hætti og að barnið þurfi frekari þjónustu en þegar er veitt, skal hann bregðast við því.
Það er gert með því veita foreldrum og/eða barni leiðbeiningar um samþættingu þjónustu. Í því felst meðal annars að upplýsa þau um hlutverk tengiliðar vegna farsældar viðkomandi barns.
Aðili sem þjónustar barn getur aðstoðað foreldra við að fylla út beiðni um miðlun upplýsinga til tengiliðar. Það þýðir að viðkomandi hefur þá heimild til að upplýsa tengilið farsældar um aðstæður barnsins.
Foreldrar eða barn gætu einnig haft frumkvæði að því að hafa samband við tengilið.
Tengiliður í nærumhverfi leiðir samtal
Öll börn og foreldrar þeirra hafa aðgang að tengilið farsældar, hjá heilsugæslu, leik- grunn- og framhaldsskóla eða félagsþjónustu.
Tengiliður barns er fagaðili í nærumhverfi þess sem hefur yfirsýn yfir þá þjónustu sem er í boði og getur svarað spurningum eða bent á leiðir varðandi þjónustu við barnið.
Það hvar tengiliður starfar ræðst af aldri barns:

  1. Á meðgöngu og á ungbarnaskeiði: Starfsmaður heilsugæslu – til dæmis ljósmóðir eða hjúkrunar­fræðingur í ung­barna­vernd.

  2. Í leikskóla, grunnskóla eða framhaldsskóla: Starfsmaður skólans – til dæmis deildarstjóri, þroskaþjálfi eða námsráðgjafi.

  3. Fyrir börn og ungmenni sem ekkert af ofantöldu á við: Tengiliður hjá félagsþjónustu síns sveitarfélags.

Með tengilið er börnum og foreldrum gert kleift að leita til eins aðila sem hefur yfirsýn yfir þjónustu í stað þess að þurfa að fara á marga staði til að leita að slíkum upplýsingum. Tengiliður er foreldrum og barni innan handar ef þörf krefur þ.m.t. með því að veita leiðbeiningar um hvert skuli leita til að fá þjónustu og aðstoð við að tryggja aðgang að þjónustu.
Foreldrar og/eða barn þurfa sérstaklega að gefa leyfi áður en tengiliður hefur samband við aðra aðila.
Tengiliður hefur ekki heimild til að hafa samband við aðra þegar hann hefur móttekið upplýsingarnar, heldur þarf hann fyrst hafa samband við foreldra og/eða barn.
Samþætting þjónustu virkjuð ef við á
Tengiliður vinnur úr þeim upplýsingum sem hann aflar sér og í samtali við foreldra og/eða barn metur hann hvort þörf er á samþættingu þjónustu við barnið.

  • Ef tengiliður telur að barn sé að fá alla þá þjónustu sem það þarf og ekki þörf á samþættingu, heldur tengiliður samt áfram að aðstoða fjölskylduna og metur aftur síðar hvort þörf sé á samþættingu.

  • Telji tengiliður að samþætting þjónustu sé barninu fyrir bestu leiðbeinir hann foreldrum og eða barni í hverju samþætting þjónustu felst og leiðbeinir um beiðni um samþættingu þjónustu.

Beiðni um samþættingu þjónustu er eyðublað sem foreldrar og/eða barn fylla út þar sem óskað er eftir að þjónusta við barn verði samþætt. Beiðnin heimilar tengiliðum, málstjórum, þjónustuveitendum og þeim sem veita þjónustu í þágu farsældar barns að vinna upplýsingar um barn til að tryggja því skipulagða og samfellda þjónustu.
Með beiðni um samþættingu þjónustu er komið á milliliðalausum samskiptum milli þeirra sem veita þjónustu í þágu farsældar viðkomandi barns. Samskiptin eru leidd af tengilið farsældar, eða málstjóra farsældar ef við á.

bottom of page